Heim­ir Jónas­son fyrrverandi framkvæmdastjóri Markaðsstofu Kópavogs lést á líkn­ar­deild Land­spít­al­ans laug­ar­dag­inn 28. mars sl. eftir erfið veikindi.

Heim­ir var fram­kvæmda­stjóri Markaðsstofu Kópa­vogs frá miðju ári 2016 fram á mitt ár 2018. Heim­ir starfaði áður m.a. sem dag­skrár­stjóri Stöðvar 2, sem fram­leiðslu­stjóri hjá Lata­bæ, þjálf­ari hjá Dale Car­negie og um ára­bil rak hann eigið markaðsfyr­ir­tæki; Icelandic Cow­boys. Hann út­skrifaðist úr Uni­versity of Televisi­on and Film í München í Þýskalandi árið 1995 og lauk MBA-námi frá Há­skóla Íslands árið 2017.

Stjórn Markaðsstofu Kópavogs sendir fjölskyldu Heimis innilegar samúðarkveðjur.

Forsvarsmönnum fyrirtækja í Kópavogi er boðið til morgunfundar um efnahagshorfur fyrir 2020 og 2022 sem haldinn verður föstudaginn 21 febrúar nk. kl. 8:00 til 9:00 í útibúi bankans á 1. hæð í Norðurturni að Hagasmára 3, 201 Kópavogi,

Á fundinum mun Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka og Bergþóra Baldursdóttir, hagfræðingur í Greiningu Íslandsbanka fara yfir nýja þjóðhagsspá fyrir árin 2020-2022, svara fyrirspurnum og ræða við gesti.

Boðið verður uppá léttan morgunverð.

Fundurinn er opinn öllum forsvarsmönnum fyrirtækja í Kópavogi.

Þátttakendur eru vinsamlegast beðnir að tilkynna þátttöku með tölvupósti til markadsstofa@kopavogur.is eða í síma 864 8830.

Á síðustu árum hefur umferð á höfuðborgarsvæðinu aukist verulega og nú er svo komið að á álgstímum færist umferðin áfram á gönguhraða.  Skipulagsyfirvöld eru ekki að ná tökum á viðfangsefninu, bættar samgöngur virðast kalla á fleiri bíla og illa gengur að auka notkun almannasamgangna. Lausnir miða allar að því að stækka og auka flutningsgetu kerfisins.

Hvers vegna eru umferðahnútar á morgnana og síðdegis? Hver er rót vandans?

Rót vandans liggur í því að starfsfólk býr í úthverfum en sækir vinnu miðsvæðis í Reykjavík.

Er ekki meiri skynsemi í að greina rót vandans og leysa hið raunverulega  viðfangsefni frekar en að vera stöðug að glíma við afleiðingarnar með plástrum og verkjalyfjum. Rót vandans liggur í því að of stór hluti atvinnlífsins er miðsvæðis í Reykjavík og því liggur umferðaþunginn niður í bæ á morgnanna og til baka í úthverfin í lok dags, þegar starfsfólk heldur til og frá vinnu. Hin raunhæfa lausn liggur í því að byggja upp og styrkja atvinnulíf í úthverfum höfuðborgarinnar, á svæðum sem staðsett eru í námunda við stofnbrautir. Þegar straumar liggja jafnt í allar áttir verður nýting umferðarmannvirkja betri, flöskuhálsar leysast og flæði í umfeðinni verður þannig að umferðartími til og frá vinnu styttist. Leiða má sterk rök að því að áhersla á uppbyggingu atvinnusvæða í Kópavogi og öðrum svæðum utan miðbæjarkjarnanns sé mikilvægt innlegg til að nýta umferðarmannvirki betur, jafna umferðarálag og spara vegfarendum dýrmætan tíma.

Við Kópavogsbúar njótum góðs af því að síðustu ár hefur uppbygging atvinnulífs verið mikil í bæjarfélaginu og nú er svo komið að framboðin störf í bænum eru nægjanleg til að uppfylla eftirspurn bæjarbúa á vinnumarkaði. En auðvitað er það ekki svo að Kópavogsbúar sæki vinnu í Kópavogi og íbúar annarra bæjarfélaga í sínum heimabæ. Höfuðborgarsvæðið er eitt atvinnusvæði og fólk sækir sína atvinnu þangað sem tækifærin gefast og hverjum best passar.

Kópavogsbær er að vinna gott og markvisst starf við innleiðingu Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna og er leiðandi aðili í þeirri vegferð á Íslandi. Uppbygging öflugs atvinnulífs í Kópavogi styður innleiðingu heimsmarkmiðanna og er mikilvægur þáttur í því að gera bæjarfélagið sterkara og Kópavog að betri stað til að búa í. Störf í heimabyggð leiða til minni aksturs á álagstímum og létta þannig á umferðarþunga með jákvæðum umhverfisáhrifum. Tímann sem sparast má nýta til samveru með fjölskyldu eða til heilsueflingar og morgunstressinu breya í gæðastundir. Störf í nærumhvefi einfalda lífið og leiða til aukinnar atvinnuþátttöku vegna nálægðar heimilis, skóla/leikskóla og vinnustaðar og stuðla þannig að auknu jafnrétti, þar sem fjölskyldur með ung börn og jaðarhópar fá betri aðgang og fleiri atvinnutækifæri.

Hugsum í lausnum og hættum að hnýta umferðarhnúta.

Viðtal við Sigurð Sigurbjörnsson varaformann stjórnar Markaðsstofu Kópavogs.

Kópavogur er sjálfbær hvað varðar fjölda framboðinna starfa í bænum, hvort sem litið sé til fjölda launþega í Kópavogi eða á hlutfall veltu fyrirtækja í Kópavogi af heildarumsvifum á íslenskum fyrirtækjamarkaði. Þetta sýna tölur sem Markaðsstofa Kópavogs hefur tekið saman. „Við höfum oft þurft að hlusta á fullyrðingar um að bærinn okkar sé svefnbær þar sem íbúar þurfi að sækja vinnu og þjónustu í önnur sveitarfélög. Þessar fullyrðingar eru rangar og haldið fram af þeim sem ekki þekkja til mála í Kópavogi,“ segir Sigurður Sigurbjörnsson, varaformaður stjórnar Markaðsstofu Kópavogs. Hann bendir á að um síðustu áramót hafi skráðir Íslendingar verið 366 þúsund talsins skv. Tölum Hagstofu Íslands og Kópavogsbúar verið 37 þúsund, eða rúmlega 10% landsmanna. Hlutfallið er aftur á móti hærra þegar kemur að fyrirtækjum en að sögn Sigurðar eru 10,8% skráðra rekstraraðila með lögheimili í Kópavogi og launþegar í Kópavogi eru 10,3% af heildarfjölda skráðra launþega á á landinu. „Heildarvelta fyrirtækja í Kópavogi er um 12% af heildarumsvifum á íslenskum fyrirtækjamarkaði. Það er því óhætt að fullyrða að Kópavogur sé sjálfbær hvað varðar fjölda framboðinna starfa í bænum,“ segir Sigurður.

Aðspurður segir Sigurður að upplýsingarnar komi honum ekki á óvart þar sem atvinnulíf í bænum sé mjög öflugt og fyrirtæki og stofnanir hafi verið að flytja til bæjarins síðustu árin. „Í dag eru margir sterkir verslunar- og þjónustukjarnar í bæjarfélaginu og segja má að þjónustusvæðið frá Smiðjuvegi niður Dalveginn og yfir í Smárann og Lindir sé miðpunktur höfuðborgarsvæðisins, með Smáralindina sem þungamiðju. Það er einnig mjög jákvætt að rekstraraðilar eru staðsettir um allan Kópavog og fjölbreytt þjónusta nær því til allra hverfa bæjarins. Í Kópavogi eru starfandi fyrirtæki í öllum helstu greinum verslunar og þjónustu, auk framleiðslu- og tækni, allt frá stórum og rótgrónum aðilum til spennandi sprota- og nýsköpunarfyrirtækja,“ segir Sigurður og bætir við að sérstaklega sé það ánægjulegt að sjá stórfyrirtæki og opinberar stofnanir velja Kópavog sem staðsetningu fyrir höfuðstöðvar sínar. „Við sem hér búum vitum að Kópavogur er bær sem er fullur af lífi og spennandi tækifærum,“ segir Sigurður að lokum.

Viðtalið birtist í Vogum, blaði sjálfstæðismanna í Kópavogi í desember 2019.

Markaðsstofa Kópavogs óskar

Kópavogsbúum og  landsmönnum öllum

Gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.

Hátæknifyrirtækið Teledyne Gavia ehf., sem framleiðir ómannaða kafbáta, er staðsett á Kársnesinu í Kópavogi. Fyrirtækið er í eigu bandaríska fyrirtækisins Teledyne Technologies Incorporated.

Fyrirtækið framleiðir kafbáta sem sigla ómannaðir og er þeim ætlað að leysa verkefni neðansjávar, verkefni sem ekki er hagkvæmt að framkvæma með stærri og dýrari lausnum. Viðfangsefnin geta verið hernaðarleg, viðskiptaleg eða tengd björgunarstörfum. Kafbátarnir eru búnir skynjurum og öðrum hátæknibúnaði til að skoða, mynda og  rannsaka svæði neðansjávar. Bátarnir eru samsettir úr nokkrum sérhæfðum einingum, sem hægt er að skipta út og setja inn nýja sérhannaða huta í staðinn en þessi eiginleiki eykur sveigjanleika og notagildi bátanna mikið. Í framleiðslu eru tvær tegundi báta, minni báturinn, Gavia AUV, vegur um 70 til 120 kg. en hinn, SeaRaptor AUV, er mun stærri og vegur tæplega 1,1 tonn. Bátar frá fyrirtækinu hafa m.a. verið notaðir til að leita að sprengjum neðansjávar, til að leysa ýmis verkefni við olíuleit og vinnslu auk þess að hafa nýst við leit að flökum eftir flug- og sjóslys. Markaðssvæði fyrirtækisins er heimurinn allur og núverandi viðskiptavinir eru ríkisstjórnir og stórfyrirtæki í Evrópu, Ameríku og Asíu.

Hjá fyrirtækinu starfa 20 manns og sinnir um helmingur þeirra eingöngu vöruþróun og prófunum. Margir starfsmenn eru með mikla og sérhæfða menntun og ljóst að ekki er mikið framboð af störfum sem krefjast þeirrar þekkingar á Íslandi. Störf sem Teledyne Gavia og önnur fyrirtæki í hátæknigeiranum skapa eru því mjög mikilvæg fyrir atvinnulífið í Kópavogi og á Íslandi.

Fyrirtækið bauð utanríkisráðherra Guðlaugi Þór Þórðarsyni og Ármanni Kr. Ólafssyni bæjarstjóra Kópavogs í heimsókn þar sem starfsemin var kynnt og framleiðsluvörur þess sýndar.

Á myndinni eru Stefán Reynisson framkvæmdastjóri ásamt Ármanni Kr. Ólafssyni bæjarstjóra og Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra.

Á horninu á Auðbrekku og Dalbrekku er lítill og fallegur vegan/grænmetis staður sem ber nafnið MR.JOY. Staðurinn er í sama húsnæði og Mamma Veit Best. MR.JOY er lítið fjölskyldufyrirtæki með risastórt hjarta og mikinn metnað. „Við viljum vera lítið umhverfisvænt fjölskyldufyrirtæki, sem býður upp á ferska góða og holla framleiðslu, unna úr ferskasta og besta lífræna hráefni sem völ er á segir Reynir Hafþór Reynisson sem rekur staðinn ásamt eiginkonu sinni Írisi Mjöll Eiríksdóttur.

Frá því að MR.JOY opnaði sl. vor hefur verið boðið upp á heita súpu, sem kynnt er sem „Töfrandi heita súpa dagsins, sem vermir, léttir lund og gerir kraftaverk fyrir heilsuna“. Súpan er vegan og glútenlaus, súrdeigsbrauð fylgir með og hægt er að bæta við hummus. Nýlega hafa þau bætt við “Rétt dagsins” sem er heitur og hollur vegan réttur, sem hægt er að fá í heilum og hálfum skömmtum. Þá framleiða þau einnig syndsamlega góðar súkkulaðihrákökur og hummus og einnig grænt og rautt pesto. Þá hafa vegan /grænmetis mr.joy-minilokurnar, fersku djúsarnir og hinir næringarríku smoothies notið gríðarlegra vinsælda alveg frá upphafi. Sama má segja um skafísinn sem framleiddur er af Joylato. „Við leggjum metnað okkar í að bjóða gott lífrænt ræktað hráefni og allar okkar umbúðir eru lífrænar því þær eru búnar til úr plöntum. Við hvetjum líka fólk að koma með sín eigin ílát og fá afslátt í staðinn“ segir Reynir

Það er notalegt að stoppa við hjá MR.JOY í nokkrar mínútur og taka með sér hollan og góðan mat eða njóta hans á staðnum. Það má með sanni segja að MR.JOY sé eitt best geymda leyndarmálið í Kópavogi.

Þvegillinn er fjölskyldufyriræki sem var stofnað af Gunnlaugi Einassyni og fjölskyldu árið 1969 og er fyrirtækið því 50 ára nú í ár. Fyrirtækið var stofnað á heimili Gunnlaugs við Álfhólsveg og hefur alltaf verið með heimilisfesti í Kópavogi. Helstu verkefnin Í upphafi voru að hreingera og bóna sjúkra- og skurðstofur á Borgarspítalanum í Fossvogi en fljótlega bættust við verkefni í öðrum stofnunum, fyrirtækjum og heimahúsum. Árið 2000 tóku Einar Gunnlaugsson húsasmíðameistari og Magnea Geirsdóttir við rekstri fyrirtækins og 2003 hóf Gunnlaugur Einarssonar sonur þeirra einnig störf hjá fyrirtækinu og má því segja að þrjár kynslóðir hafi starfað við reksturinn. Verkefnum hefur fjölgað jafnt og þétt og þau eru orðin fjölbreyttari og flóknari með tilheyrandi tækjabúnaði. Þvegillinn er kominn í húsnæði við Nýbýlaveg 14 í Kópavogi þar sem m.a. er góð þvottaaðstaða og aðstaða til að hreinsa húsgögn auk þess sem þar fer vel um starfsfólkið.

„Við höfum mikla reynslu í að hreingera heimili, sameignir, fyrirtæki og sumarhús auk sérhæfðari verkefna á sjúkrahúsum, álverum og hreingerningum um borð í skipum og flugvélum. Starfsfólkið okkar er að sjálfsögðu ómissandi, það  er vel þjálfað, með hreina sakaskrá og gerir alltaf sitt besta. Við leggjum okkur fram um að skapa gott starfsumhverfi með góðum aðbúnaði og jákvæðum samskiptum og hefur sama fólkið starfað hjá fyrirtækinu árum saman“ segir Einar Gunnlaugsson stoltur af fyrirtækinu og sínu fólki.

Markaðsstofa Kópavogs óskar fjölskyldunni til hamingu með 50 árin sem setur fyrirtækið í hóp elstu starfandi fyrirtækja í bænum.