• Jæja krakkar, pökkum í bílinn og tökum með okkur nesti og hlý föt!
  • Erum við að fara að fara að kaupa ís og skoða apana í Eden?
  • Nei, aldeilis ekki, við erum að fara í Kópavoginn!

Það er ekki eins og það sé eitthvað ferðalag að fara í Kópavog: miðja höfuðborgarsvæðisins er í Kópavogi.  Hér snýst ævintýrið um áfangastaðinn en ekki ferðalagið þangað því á nokkrum mínútum ertu komin(n) á öflugasta verslunar og þjónustusvæði höfuðborgarsvæðisins, Smáralind og hið fjölbreytta þjónustuumhverfi í Lindunum og upp með Dalveginum. Fyrirtækin sem eru að koma sér fyrir í glæsilegum Norðurturninum uppgötvuðu að ferðalagið fyrir starfsmenn þeirra í vinnuna var að styttast talsvert. Af hverju að hanga í bíl á leið heim eða í vinnuna þegar maður getur átt meiri tíma með börnunum? Þegar framkvæmdastjóri Markaðsstofunnar hóf störf fyrir Markaðsstofuna voru sterk íþróttafélög og verslun og þjónusta í Kópavogi efst í huga. Eftir því sem ég hitti fleiri íbúa skildi ég af hverju svo mörgum íbúum finnst Kópavogur fjölskylduvænt bæjarfélag.  Sjálfbærnin (það þarf ekki að yfirgefa bæjarfélagið til að sækja hvaða þjónstu sem er) – öflugt íþróttastarf þar sem Gerpla, HK, Breiðablik eru í fararbroddi.  En það er ekki allt:

  • Mamma ég þarf ekki síma!
  • Nú!? Af hverju ekki?
  • Krakkar eru hættir að hringja. Ég nota bara Ipadinn sem ég fæ í skólanum!

Ég heyrði af þessu samtali um daginn og mundi þá eftir fréttaumfjölluninni haustið 2016 um skólakerfið í Kópavogi og hvað þjónusta skólanna í Kópavogi væri góð.  Öflugt starf Gerðarsafns og áhersla þess á samtímalist og börn. Salurinn, eitt besta tónlistarhús landsins og Náttúrufræðistofa Kópavogs: Allt miðar þetta að því að skapa Kópavogi sérstöðu. Metnaður bæjarfélagsins í skipulagsmálnum og uppbyggingu Kópavogs þar sem falleg hönnun og skipulag er í takti við nútímahugsun, þar sem umhverfissjónarmið er haft að leiðarljósi. Metnaðurinn að vera í fararbroddi þegar t.d. kemur að því að sortera plastið með pappírnum eða sýna íbúum nákvæmlega upp á krónu á vefnum hvert peningarnir fara.  Þannig er gott bæjarfélag. Þannig er Kópavogur.