Íþróttabíll Kóapvogs

 

Að frumkvæði Markaðsstofu Kópavogs hafa íþróttafélögin Breiðablik, Gerpla og HK sameinast um akstur á yngstu félögum sínum frá frístundaheimilum skólanna á íþróttaæfingar félaganna. Akstur hófst mánudaginn 3. september og verður þjónustan veitt, foreldrum að kostnaðarlausu, alla daga sem frístundarheimili eru opin í vetur. Tveir bílar verða á ferðinni frá kl. 13:30 til kl. 16:30 með viðkomu á öllum frístudarheimilum bæjarins og íþróttasvæðum félaganna. Þjónustan er opin öllu börnum á leið í tómstundastarf á vegum félaga í Kópavogi óháð því hvort þau séu skráð á frístundarheimili.
Þessu metnaðarfulla verkefni er ætlað að auka samþættingu skóla og íþróttastarfs, stytta vinnudag yngstu grunnskólabarna, nýta íþróttamannvirkin enn betur og jafna aðgengi allra barna að heilbrigðu íþrótta- og æskulýðsstarfi. Þjónusta við foreldra mun aukast verulega auk þess sem umhverfismengun og sóun mun minnka með minna skutli á æfingar.
Síðustu ár hafa félögin hvert í sínu lagi og hvert með sínu sniði verið að veita þessum hópi akstursþjónustu. Félögin hafa nú, að frumkvæðo og með leiðbeinandi aðstoð frá Markaðsstofu Kópavogs, sameinast um aksturinn með það að markmiði að veita enn betri þjónustu. Kópavogsbær mun styðja verkefnið en Teitur Jónasson sem einnig sér um skólaakstur fyrir Kópavogsbæ mun sjá um aksturinn.

Aðalfundur Markaðsstofu Kópavogs 2018

Aðalfundur Markaðsstofu Kópavogs 2018 var haldinn í Molanum mánudaginn 10. september sl.

Stjórnarformaður Markaðsstofunnar Anna María Bjarnadóttir setti fundinn og lagði til að Jón Halldórsson sæi um fundarstjórn og Björn Jónsson ritaði fundargerð og var það samþykkt samhljóða. Hún flutti síðan skýrslu stjórnar þar sem farið var yfir þau margbreytilegu verkefni sem Markaðsstofan hefur sinnt frá síðasta aðalfundi. Skýrslu stjórnar má finna í heild sinni í viðhengi hér fyrir neðan. Björn Jónsson fór yfir reikninga félagsins og í framhaldi opnaði fundarstjóri fyrir umræður um skýrslu stjórnar og reikninga félagsins. Góðar og málefnalegar umræður urðu um viðfangsefni Markaðsstofunnar og framtíðar áherslur í starfsemi hennar og voru mismunandi sjónarmið viðruð. Tillaga stjórnar um hækkun á aðildarfélagsgjaldi úr 12.500 kr í 15.000 kr. var samþykkt með þorra atkvæða. Þá voru tillögur stjórnar um minni háttar breytingar á samþykktum félagsins samþykktar samhljóða. Fundargerð aðalfundarins má finna í viðhengi hér fyrir neðan.

Kynnt var tilnefning Kópavogsbæjar á fjórum nýjum aðalmönnum í stjórn sem eru Helga Halldórsdóttir, Sigurður Sigurbjörnsson, Tómas Þór Tómasson og Elvar Bjarki Helgason. Úr stjórn fara Annna María Bjarnadóttir, Jón Halldórsson, Jónas Már Torfason og Jón Finnbogason ásamt varamönnum Þóru Ólafsdóttur og Auði Sigrúnardóttur. Anna María kvaddi sér hljóðs og bauð nýja stjórnarmenn velkomna að borðinu og þakkaði þeim sem hverfa á braut fyrir vel unnin störf og færði þeim blómvönd sem þakklætisvott fyrir þeirra framlag. Hún þakkaði Páli Ólafssyni skoðunarmanni reikninga sérstaklega fyrir góða aðstoð á árinu og færði honum blómvönd.  Anna var einnig leyst út með blómvendi í lok fundar og henni þakkað fyrir dugmikið starf.

Ný stjórn hélt sinn fyrsta fund miðvikudaginn 12. september og skipti þá með sér verkum þannig að Helga Halldórsdóttir var kjörinn formaður, Sigurður Sigurbjörnsson varaformaður og Tómas Hafliðason ritari stjórnar.

Aðalfundur Markaðsstofu Kópavogs, fundargerð.

Aðalfundur Markaðsstofu Kópavogs, skýrsla stjórnar.

Ársreikningur Markaðsstofu Kópavogs 2017.

Hvernig á að verjast innbrotum og þjófnaði?

 

 

Markaðsstofa Kópavogs boðaði til hádegisfundar hjá Öryggismiðstöðinni að Askalind 2, 201 Kópavogi, miðvikudaginn 29. ágúst.

Fundurinn var haldinn í glæsilegu húsnæði Öryggismiðstöðvarinnar og var tekið á móti gestum með veglegum veitingum. Á fundinum flutti Ómar Rafn Halldórsson sérfræðingur í öryggismálum skemmtilegt og fróðlegt erindi um hegðun brotafólks og helstu aðferðir sem notaðar eru við innbrot í fyrirtæki. Hann benti á ýmsar fyrirbyggjandi aðgerðir og gaf góð ráð um það sem fyrirtæki ættu að huga að til að minnka áhættu sína og mögulegt tjón.

Öryggismál eru vaxandi þáttur í daglegum rekstri fyrirtækja og vakti erindi Ómars fundargesti til umhugsunar um málaflokkinn og mikilvægi þess að sofa aldei á verðinum því þá er voðinn vís.

Markaðsstofan þakkar Öryggismiðstöðinni fyrir mjög áhugaverðan og skemmtilegan fund og

frammúrskarandi góðar móttökur og veitingar.

Aðalfundur Markaðsstofu Kópavogs 2018

Aðalfundur Markaðsstofu Kópavogs verður haldinn mánudaginn 10. september kl. 12:00 í Molanum, Hábraut 2, 200 Kópavogi.

Dagskrá

  1. Kosning fundarstjóra og fundarritara
  2. Skýrsla stjórnar 2017/2018
  3. Reikningar félagsins lagðir fram. (Ársreikningur 2017)
  4. Ákvörðun árgjalds
  5. Lagabreytingar (tillögur til breytinga á samþykktum)
  6. Tilnefning Kópavogsbæjar á nýjum stjórnarmönnum kynnt
  7. Kosning skoðunarmanns reikninga og eins til vara
  8. Önnur mál
  9. Fundargerð lesin og samþykkt
  10. Fundi slitið

Samkvæmt 7. gr. samþykktar Markaðsstofu Kópavogs eiga þeir sem greitt hafa árgjald félagsins kjörgengi  og kosningarétt á aðalfundinum.

Allir aðildarfélagar að Markaðsstofu Kópavogs eru boðnir hjartanlega velkomnir.  Þeir sem vilja gerast aðilar fyrir aðalfund félagsins geta haft samband með tölvupósti á markadsstofa@kopavogur.is eða í síma 864 8830.

Stjórn Markaðsstofu Kópavogs.

Símamót Breiðabliks

 

Símamót Breiðabliks er stærsta knattspyrnumót sem haldið er árlega á Íslandi.
Mótið, sem er fyrir stúlkur, var haldið í 34. sinn í Smáranum dagana 12. til 15. júlí. Metþátttaka var á mótinu í ár og voru 328 lið skráð til keppni með rúmlega 2.200 stúlkur sem öttu kappi þessa þrjá daga, sem mótið fór fram. Alls voru leiknir 1.312 leikir og var spilað á 32 völlum föstudag, laugardag og sunnudag. Áætlað er að um 5.000 manns hafi verið á mótssvæðinu á hverri stundu á meðan mótið var í gangi.
Símamótið fór ekki framhjá okkur Kópavogsbúum þar sem viðvera gesta var ekki eingöngu bundin við íþróttasvæði Breiðabliks í Smáranum. Mörg keppnislið gistu í skólum bæjarins og mikil tjaldborg reis á Kópavogstúni þannig að leikmenn og aðstandendur þeirra voru vel sýnilegir um allan bæ. Mót af þessari stærðargráðu skapar aukin viðskipti í verslun og þjónustu eins og sjá mátti m.a. í sundlaugum bæjarins og í verslunum í Smárlind og Hamaborg.
Íþróttafélagið Breiðablik, starfsfólk þess og fjöldi sjálfboðaliða eiga mikið hrós skilið fyrir skipulagningu og framkvæmd á þessu glæsilega knattspyrnumóti.

 

 

 

 

 

 

 

Herramenn í Hamraborg

 

Rakarastofan Herramenn hefur flutt starfsemi sína í Hamraborg 9 í Kópavogi.

Rakarastofan Herramenn er eitt elsta starfandi fyrirtæki í Kópavogi en það var stofnuð 9. desember árið 1961 af Torfa Guðbjörnssyni hárskera og rakarameistara. Gauti, sonur Torfa, fylgdi í fótspor föður síns og hefur starfað á stofunni frá 1981. Þriðja kynslóðin bættist við árið 2003 þegar sonur Gauta, Andri Týr, byrjaði að nema fagið. Í eitt ár unnu þessar þrjár kynslóðir saman á rakarastofunni en Torfi lést árið 2004. Frá fyrsta degi hefur rakarastofan verið í hjarta Kópavogs.

Rakarastofan Herramenn sérhæfir sig í snyrtingu fyrir herramenn á öllum aldri; hár, skegg, rakstur og hárþvottur. Við hvetjum alla karlmenn í Kópavogi til að kíkja í heimsókn og kynna sé frammúrskarandi þjónsutu þeirra Herramanna.

Nánari upplýsingar um Rakarastofuna Herramenn má finna á heimasíðu fyrirtækisins www.herramenn.is/

 

 

Uppbygging á Kársnesi

 

Nú er hafin markviss uppbygging utarlega á Kársnesinu í Kópavogi. Fyrir á svæðinu voru að mestu gamlar eignir sem nú hafa verið fjarlægðar og í staðin verða reist glæsileg íbúðarhús þar sem lögð er áhersla á vandaða hönnun og efnisval. Bryggjuhverfið er þegar vel á veg komið og reiknað er með að fyrstu íbúðir vestar á nesinu verði tilbúnar síðar á árinu.

Markaðsstofa Kópavogs í samstarfi við Kópavogsbæ og verktaka á svæðinu vinnur að gerð vefsíðu sem sýnir svæðið í þrívíðri mynd. Vefsíðan mun gefa gott yfirlit yfir heildarsvæðið en jafnframt verður mögulegt að þysja inn og skoða svæðið og einstaka eignir í nærmynd. Markaðsstofan vann sambærilegt verkefni fyrir Glaðheimasvæðið á síðasta ári sem skoða má á https://www.gladheimahverfid.is/.

 

 

 

Hamraborgin sem miðbæjarsvæði

Markaðsstofa Kópavogs boðaði rekstraraðila í Hamraborg til vinnufundar fimmtudaginn 17. maí sl. þar sem farið var yfir stöðu Hamraborgarinnar sem verslunar- og þjónustsvæðis.

Birgir Sigurðsson skipulagsstjóri Kópavogsbæjar fór yfir samþykkt bæjarráðs frá 23. mars sl. um „Hönnun á miðsvæði  á Kópavogshálsi“ og kynnti nokkrar skemmtilegar hugmyndir um breytingar á svæðinu. Góðar umræður urðu á fundinum, hugmyndir voru ræddar og fram komu góðar tillögur um það sem lagfæra má nú þegar. Theodóra Þorsteinsdóttir formaður bæjarráðs kom inn á fundinn og tók þátt í hugmyndaflugi um Hamraborg framtíðarinnar.

Markaðsstofan mun vinna frekar úr þeim fjölmörgu góðu hugmyndum sem fram komu og í framhaldi leggja fram tillögur til bæjaryfirvalda um aðgerðir til úrbóta, í samráði við rekstraraðila í Hamraborg. Allir sem hafa uppbyggjandi hugmyndir um það sem lagfæra má og bæta á Hamraborgarsvæðinu eru hvattir til að hafa samband við Markðsstofu Kópavogs, markdsstofa@kopavogur.is.