Morgunfundur Markaðsstofu Kópavogs og Íslandsbanka.

Markaðsstofa Kópavogs og Íslandsbanki buðu forsvarsmönnum fyrirtækja í Kópavogi til morgunfundar þriðjudaginn 12 febrúar sl. kl. 8:00 til 9:00 í útibúi bankans að Hagasmára 3. Vel var mætt og fundarmenn áhugasamir um erindi Jóns Bjarka Bentssonar, aðalhagfræðings Íslandsbanka sem fór yfir efnahagshorfur fyrir þetta ár og hið næsta samkvæmt nýuppfærðri þjóðhagsspá Greiningar Íslandsbanka.

Eftir að Bjarki hafði lokið sínu erindi kynntu Eyrún Huld Harðardóttir og Ragnar Trausti Ragnarsson Meistaramánuð Íslandsbanka.

Boðið var uppá léttan morgunverð og fóru gestir vel upplýstir og mettir af fundinum.

Markaðsstofan þakkar Íslandsbanka fyrir góðar móttökur og þáttakendum fyrir mætinguna.

Tannlæknastofa Kópavogs opnar í Kórahverfi

Tannlæknastofa Kópavogs hóf starfemi í Kórahverfinu nýlega. Stofan er staðsett á þriðju hæð í nýju og glæsilegu húsnæði við Vallarkór 4 (sama hús og Krónan) og er eina tannlæknastofan í póstnúmeri 203. Þess má geta að aðgengi fyrir fatlaða er mjög gott og næg bílastæði eru á staðnum. Nýja stofan er búin nýjustu tækjum og tækni og má m.a. nefna að í tannlæknastólnum er hægt að horfa á spjaldtölvu með hljóðdeyfandi heyrnatólum.

Tannlæknar stofunnar eru þau Birgir Pétursson og Kolbrún Edda Haraldsdóttir og munu þau bjóða uppá alla almenna tannlæknaþjónustu. Að sögn Birgis og Kolbrúnar verður lögð áhersla á góða persónulega þjónustu og verður m.a. opið fram á kvöld á fimmtudögum.

Markaðsstofa Kópavogs hvetur Kópavogsbúa til að taka vel á móti nýju tannlæknastofunni og aukinni þjónustu í hverfinu.

Nánari upplýsingar má finna hér.

Hreinsunarátak á atvinulóðum á Kársnesi

Síðustu vikuna í nóvembermánuði stóð Kópavogsbær fyrir hreinusnarátaki á Kársnesi í samstarfi við fyrirtæki og byggingaraðila á svæðinu.

Endurvinnslugámum var komið fyrir við Bakkabraut 9 þar sem fyrirtæki gátu losað sig við málma, timbur, plast og pappa án kostnaðar. Starfsmenn áhaldahúss Kópavogs voru á svæðinu til að hirða rusl og annað dót sem var utan lóða og límdu aðvörunarmiða á bíla, gáma og aðra lausamuni sem voru í leyfisleysi á bæjarlandi.

Góð þátttaka var í átakinu og mikið magn af rusli, bílhræjum og öðrum úrgangi var fjarlægt af svæðinu og því komið til endurvinnslu.

Gaman var að sjá góða samstöðu um að gera umhverfið hreinna og snyrtilegra.

 

Neyðarþjónustan flytur í Kópavoginn

Neyðarþjónustan ehf. var stofnuð árið 1988 og verður því 30 ára á árinu.  Félagið var stofnað til að sinna almennri  lásasmíði, lásaviðgerðum og hvers konar neyðaropnunum, hvort sem um er að ræða húsnæði, bíla eða hirslur.

Fyrirtækið flytur nú að Skemmuveg 4 og mun reka þar verkstæði og verslun með lásatengdar vörur s.s. lykla, skrár, læsingar og hurðapumpur auk fleiri vara tengdum öryggisbúnaði og aðgangsstýringum. Forritun og smíði bíllykla er stór þáttur í starfseminni en einnig uppsetning, ráðgjöf og viðgerðavinna auk þess sem fyrirtækið sér um að loka vettvangi eftir innbrot og veðurtjón, m.a. með rúðuskiptum og viðgerðum á hurðum.

Hjá Neyðarþjónustunni starfa aðeins lásasmiðir með hreint sakavottorð sem fá bestu þjálfun sem í boði er hverju sinni. Lásasmiðir Neyðarþjónustunnar eru metnaðarfullir og leggja sig fram um að afla sér þekkingar á sínu sviði og fylgjast með nýjungum, enda örar tækniframfarir á þessu sviði.

„Barn í bíl“ – Neyðarþjónustan veitir ókeypis lásaopnun þegar börn eru læst inni í bíl og vill fyrirtækið þannig sýna samfélagslega ábyrgð og senda jákvæð skilaboð til samfélagsins.

Fyrirtækið hefur vaxið jafnt og þétt og eru starfsmenn nú orðnir 14.

Markaðsstofa Kópavogs býður Neyðarþjónustuna velkomna í Kóapvoginn.

Tryggingastofnun Ríkisins flytur í Kópavog

Tryggingastofnun Ríkisins er nú að flytja starfsemi sína frá miðbæ Reykjavíkur á miðsvæði höfuðborgarinnar í Smárahverfinu, en stofnunin verður til húsa að Hlíðarsmála 11. Hús­næðið tel­ur tæpa 2.600 fer­metra á fjór­um hæðum en meg­in­starf­semi Trygg­inga­stofn­un­ar verður á þrem­ur hæðum. Starfs­menn stofn­un­ar­inn­ar eru nú um 110 tals­ins.

Ekki er langt síðana að Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu flutti starfsstöð sína í Hlíðarsmára 1 og þá hefur Útlendingastofnun komið sér fyrir á Dalvegi 18 og Menntamálstofnun í Víkurhvarfi 3. Landsréttur var endurreistur í vesturbæ Kópavogs, að Vesturvör 2, þar sem Siglingastofnun og síðar Samgöngustofa voru til húsa og þá má einnig geta þess að Íslandsbanki flutti höfuðstöðvar sínar í nýja turninn við Smáralind á síðasta ári.

Það er af sem áður var þegar póstnúmerið 200 þótti ekki nógu gott fyrir ríkisstofnanir og t.d. er ekki langt síðan að Kópavogsbær sá ástæðu til að senda formlega kvörtun til Fjármálaráðueytisins og Fjármálaeftirlitsins vegna kvaða sem fram komu í auglýsingu fyrir nýtt húsnæði fyrir starfsemi FME, en þar voru póstnúmerin 101 til 108 tilgreind sem möguleg staðsetning.

Það er jákvæð þróun að stjórnendur ríkisstofnanna allra landsmanna skuli hafa áttað sig á því að stofnanir geti dafnað og skilað góðri þjónustu fyrir utan póstnúmerið 101. Kópavogsbúar taka fagnandi á móti nýjum fyrirtækjum og stofnunum og bjóða starfsfólk þeirra velkomið í Kópavoginn.

Íþróttabíll Kóapvogs

 

Að frumkvæði Markaðsstofu Kópavogs hafa íþróttafélögin Breiðablik, Gerpla og HK sameinast um akstur á yngstu félögum sínum frá frístundaheimilum skólanna á íþróttaæfingar félaganna. Akstur hófst mánudaginn 3. september og verður þjónustan veitt, foreldrum að kostnaðarlausu, alla daga sem frístundarheimili eru opin í vetur. Tveir bílar verða á ferðinni frá kl. 13:30 til kl. 16:30 með viðkomu á öllum frístudarheimilum bæjarins og íþróttasvæðum félaganna. Þjónustan er opin öllu börnum á leið í tómstundastarf á vegum félaga í Kópavogi óháð því hvort þau séu skráð á frístundarheimili.
Þessu metnaðarfulla verkefni er ætlað að auka samþættingu skóla og íþróttastarfs, stytta vinnudag yngstu grunnskólabarna, nýta íþróttamannvirkin enn betur og jafna aðgengi allra barna að heilbrigðu íþrótta- og æskulýðsstarfi. Þjónusta við foreldra mun aukast verulega auk þess sem umhverfismengun og sóun mun minnka með minna skutli á æfingar.
Síðustu ár hafa félögin hvert í sínu lagi og hvert með sínu sniði verið að veita þessum hópi akstursþjónustu. Félögin hafa nú, að frumkvæðo og með leiðbeinandi aðstoð frá Markaðsstofu Kópavogs, sameinast um aksturinn með það að markmiði að veita enn betri þjónustu. Kópavogsbær mun styðja verkefnið en Teitur Jónasson sem einnig sér um skólaakstur fyrir Kópavogsbæ mun sjá um aksturinn.

Aðalfundur Markaðsstofu Kópavogs 2018

Aðalfundur Markaðsstofu Kópavogs 2018 var haldinn í Molanum mánudaginn 10. september sl.

Stjórnarformaður Markaðsstofunnar Anna María Bjarnadóttir setti fundinn og lagði til að Jón Halldórsson sæi um fundarstjórn og Björn Jónsson ritaði fundargerð og var það samþykkt samhljóða. Hún flutti síðan skýrslu stjórnar þar sem farið var yfir þau margbreytilegu verkefni sem Markaðsstofan hefur sinnt frá síðasta aðalfundi. Skýrslu stjórnar má finna í heild sinni í viðhengi hér fyrir neðan. Björn Jónsson fór yfir reikninga félagsins og í framhaldi opnaði fundarstjóri fyrir umræður um skýrslu stjórnar og reikninga félagsins. Góðar og málefnalegar umræður urðu um viðfangsefni Markaðsstofunnar og framtíðar áherslur í starfsemi hennar og voru mismunandi sjónarmið viðruð. Tillaga stjórnar um hækkun á aðildarfélagsgjaldi úr 12.500 kr í 15.000 kr. var samþykkt með þorra atkvæða. Þá voru tillögur stjórnar um minni háttar breytingar á samþykktum félagsins samþykktar samhljóða. Fundargerð aðalfundarins má finna í viðhengi hér fyrir neðan.

Kynnt var tilnefning Kópavogsbæjar á fjórum nýjum aðalmönnum í stjórn sem eru Helga Halldórsdóttir, Sigurður Sigurbjörnsson, Tómas Þór Tómasson og Elvar Bjarki Helgason. Úr stjórn fara Annna María Bjarnadóttir, Jón Halldórsson, Jónas Már Torfason og Jón Finnbogason ásamt varamönnum Þóru Ólafsdóttur og Auði Sigrúnardóttur. Anna María kvaddi sér hljóðs og bauð nýja stjórnarmenn velkomna að borðinu og þakkaði þeim sem hverfa á braut fyrir vel unnin störf og færði þeim blómvönd sem þakklætisvott fyrir þeirra framlag. Hún þakkaði Páli Ólafssyni skoðunarmanni reikninga sérstaklega fyrir góða aðstoð á árinu og færði honum blómvönd.  Anna var einnig leyst út með blómvendi í lok fundar og henni þakkað fyrir dugmikið starf.

Ný stjórn hélt sinn fyrsta fund miðvikudaginn 12. september og skipti þá með sér verkum þannig að Helga Halldórsdóttir var kjörinn formaður, Sigurður Sigurbjörnsson varaformaður og Tómas Hafliðason ritari stjórnar.

Aðalfundur Markaðsstofu Kópavogs, fundargerð.

Aðalfundur Markaðsstofu Kópavogs, skýrsla stjórnar.

Ársreikningur Markaðsstofu Kópavogs 2017.

Hvernig á að verjast innbrotum og þjófnaði?

 

 

Markaðsstofa Kópavogs boðaði til hádegisfundar hjá Öryggismiðstöðinni að Askalind 2, 201 Kópavogi, miðvikudaginn 29. ágúst.

Fundurinn var haldinn í glæsilegu húsnæði Öryggismiðstöðvarinnar og var tekið á móti gestum með veglegum veitingum. Á fundinum flutti Ómar Rafn Halldórsson sérfræðingur í öryggismálum skemmtilegt og fróðlegt erindi um hegðun brotafólks og helstu aðferðir sem notaðar eru við innbrot í fyrirtæki. Hann benti á ýmsar fyrirbyggjandi aðgerðir og gaf góð ráð um það sem fyrirtæki ættu að huga að til að minnka áhættu sína og mögulegt tjón.

Öryggismál eru vaxandi þáttur í daglegum rekstri fyrirtækja og vakti erindi Ómars fundargesti til umhugsunar um málaflokkinn og mikilvægi þess að sofa aldei á verðinum því þá er voðinn vís.

Markaðsstofan þakkar Öryggismiðstöðinni fyrir mjög áhugaverðan og skemmtilegan fund og

frammúrskarandi góðar móttökur og veitingar.

Aðalfundur Markaðsstofu Kópavogs 2018

Aðalfundur Markaðsstofu Kópavogs verður haldinn mánudaginn 10. september kl. 12:00 í Molanum, Hábraut 2, 200 Kópavogi.

Dagskrá

  1. Kosning fundarstjóra og fundarritara
  2. Skýrsla stjórnar 2017/2018
  3. Reikningar félagsins lagðir fram. (Ársreikningur 2017)
  4. Ákvörðun árgjalds
  5. Lagabreytingar (tillögur til breytinga á samþykktum)
  6. Tilnefning Kópavogsbæjar á nýjum stjórnarmönnum kynnt
  7. Kosning skoðunarmanns reikninga og eins til vara
  8. Önnur mál
  9. Fundargerð lesin og samþykkt
  10. Fundi slitið

Samkvæmt 7. gr. samþykktar Markaðsstofu Kópavogs eiga þeir sem greitt hafa árgjald félagsins kjörgengi  og kosningarétt á aðalfundinum.

Allir aðildarfélagar að Markaðsstofu Kópavogs eru boðnir hjartanlega velkomnir.  Þeir sem vilja gerast aðilar fyrir aðalfund félagsins geta haft samband með tölvupósti á markadsstofa@kopavogur.is eða í síma 864 8830.

Stjórn Markaðsstofu Kópavogs.

Símamót Breiðabliks

 

Símamót Breiðabliks er stærsta knattspyrnumót sem haldið er árlega á Íslandi.
Mótið, sem er fyrir stúlkur, var haldið í 34. sinn í Smáranum dagana 12. til 15. júlí. Metþátttaka var á mótinu í ár og voru 328 lið skráð til keppni með rúmlega 2.200 stúlkur sem öttu kappi þessa þrjá daga, sem mótið fór fram. Alls voru leiknir 1.312 leikir og var spilað á 32 völlum föstudag, laugardag og sunnudag. Áætlað er að um 5.000 manns hafi verið á mótssvæðinu á hverri stundu á meðan mótið var í gangi.
Símamótið fór ekki framhjá okkur Kópavogsbúum þar sem viðvera gesta var ekki eingöngu bundin við íþróttasvæði Breiðabliks í Smáranum. Mörg keppnislið gistu í skólum bæjarins og mikil tjaldborg reis á Kópavogstúni þannig að leikmenn og aðstandendur þeirra voru vel sýnilegir um allan bæ. Mót af þessari stærðargráðu skapar aukin viðskipti í verslun og þjónustu eins og sjá mátti m.a. í sundlaugum bæjarins og í verslunum í Smárlind og Hamaborg.
Íþróttafélagið Breiðablik, starfsfólk þess og fjöldi sjálfboðaliða eiga mikið hrós skilið fyrir skipulagningu og framkvæmd á þessu glæsilega knattspyrnumóti.